TANNHVÍTTUN
TANNHVÍTTUN
Fyrir tannhvíttunarmeðferð er mikilvægt að koma í skoðun og tannhreinsun til að meta heilbrigði tanna og tannholds. Þegar heilbrigðu ástandi hefur verið náð getur tannhvíttunarmeðferð hafist.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að postulínskrónur og plastfyllingar lýsast ekki við tannhvíttunarmeðferð. Í einhverjum tilfellum getur því þurft að skipta út dökkum fyllingum.
Hægt er að hvítta tennur með tímabókun hjá tannlækni (í tannlæknastól) eða með sérsmíðuðum gómum heimafyrir. Hvíttunin heimafyrir hefur reynst okkur best og auðveldara er að stjórna tannkuli og hve mikið tennurnar hvítna.
Tannhvíttun heimafyrir fer þannig fram að viðkomandi er bókaður tvö skipti hjá okkur. Fyrra skiptið er tekið mát af efri og neðri gómi og mátið sent til tannsmiðs. Í seinna skiptið afhendum við sérsniðna góma/skinnur og lýsingarefnið. Skinnurnar eru mátaðar og farið er yfir notkun þeirra og lýsingarefnisins.
NOKKRIR PUNKTAR
Gott er að hafa í huga við tannhvíttun með skinnum:
Mikilvægt er að tennur séu hreinar áður en meðferð hefst. Bursta skal tennur vel og vandlega og tannþráða. Þetta tryggir jafnari lýsingu og minni ertingu á tannholdi.
Settur er lítill dropi í skinnuna fyrir hverja tönn sem ætlunin er að lýsa. Dropann skal setja á framhlið skinnunnar, þ.e.a.s. þá hlið sem samsvarar framhlið tannarinnar. Til að spara sér lýsingarefni er yfirleitt nóg að lýsa framtennur og forjaxla.
Skinnurnar eru settar upp og strokið létt yfir með fingri til að dreifa vel úr efninu.
Mikilvægt er að passa að efnið dreifst ekki upp á tannholdið. Ef það gerist er mikilvægt að fjarlægja allt efni af tannholdi og setja minni dropa inn í skinnuna.
Skinnan er höfð á tönnunum í um það bil 2 klukkustundir.
Að tveimur klukkustundum liðnum er skinnan tekin úr munni og þrifin með volgu vatni og tannbursta. Betra er að nota uppþvottalög til að þrífa skinnunar því tannkremið getur rispað þær.
Tennurnar eru líka skolaðar með vatni og allt efni sem eftir verður á tönnunum er spýtt út.
Algengt er að fólk upplifi kul eftir meðferðina og gott getur verið að nota tannkrem sem ætlað er viðkvæmum tönnum/tannhálsum á meðan á meðferð stendur og í einhvern tíma á eftir. Einnig er hægt að fá hjá okkur gel sem sérstaklega er ætlað til að lina kul eftir tannhvíttun.
Endurtaka þarf þessi skref í 5-10 skipti og fer það eftir því hve vel tennurnar taka við sér og hve mikið fólk vill hvítta.
Hægt er að endurtaka meðferðina dag eftir dag og klára hana á 5-10 dögum. Ef fólk upplifir mikið tannkul er gott að taka sér 1-2 daga í frí inn á milli og klára frekar meðferðina á lengri tíma.
Mikilvægt er að neyta ekki litaðra drykkja og matar í ca. 12 klukkustundir eftir hverja meðferð. Litaðir drykkir geta t.d. verið kaffi, dökkt te, coke, rauðrófusafi, bláberjaboozt og rauðvín.