ÞJÓNUSTA

ALMENNAR TANNLÆKNINGAR

Aðal markmið tannlækninga er að viðhalda heilbrigðum tönnum og stoðvefjum þeirra.

Forvarnir eru mikilvægasti hluti almennra tannlækninga og felast þær meðal annars í reglulegu eftirliti, tannhreinsun og kennslu í munnhirðu og matarvenjum. Reynt er að grípa inn í vandamál sem upp geta komið sem fyrst svo inngripið verði sem allra minnst.

Vandamálin geta verið ýmiskonar: Tannholdsbólgur, brotnar eða skemmdar tennur, tannrótarbólga, tannleysi eða þörf á að fjarlægja tönn.

BARNA TANNLÆKNINGAR

Fyrsta heimsókn barns ætti að vera um 2-3 ára aldur. Þessi fyrsta heimsókn snýst aðallega um að skapa straust og kynna barnið fyrir nýjum aðstæðum.

Ef barn er ekki tilbúið til að leyfa tannlækni að skoða tennurnar þá gerir það ekkert til. Uppbygging trausts og góðs sambands milli tannlæknis og barns er lykilatriði. Þá gengur allt svo mikið betur í næstu heimsókn og barnið verður yfirleitt betur í stakk búið til að taka stærri skref í tannlæknastólnum.

Fyrir eldri börn er mikilvægt að það sé góð upplifun og jafnvel tilhlökkun að fara til tannlæknis. Líkt og með yngri börnin er traust, jákvæðni og gott samband milli barns og tannlæknis í fyrirrúmi.

Heilar og heilbrigðar tennur eru mikilvægt veganesti út í lífið. Reglulegt eftirlit, forvarnir og kennsla í munnhirðu skiptir þar höfuð máli þar sem alltaf er best að byrja snemma á góðum venjum. Þannig er hægt að koma í veg fyrir eða minnka meðferðarþörf til muna.

Tannlækningar barna eru að fullu endurgreiddar af Sjúkratryggingum Íslands. Að undanskildu komugjaldi sem er 3500 krónur og greiðist það árlega.

MUNNLYFLÆKNINGAR

Oft er talað um að munnurinn sé gluggi inn í líkamann þar sem unnt er að greina birtingarmyndir ýmissa sjúkdóma án mikilla inngripa.

Það er því mikilvægt að horfa á munninn í stærra samhengi - sem hluta af líkamanum. Lyflækningar munns er sú sérgrein sem lítur að greiningu og meðferð sjúkdóma sem hafa birtingarmynd í munni eða kjálkum. Margir sjúkdómar eða meðferðir þeirra geta einnig haft áhrif á tannlækningar og öfugt. Lyflækningar munns snúast um þetta samspil tanna, munnhols og líkama.

Dæmi um vandamál sem munnlyflæknar sérhæfa sig í að greina og meðhöndla:

  • Slímhúðarsjúkdómar eins og munnangur, lichen planus, pemphigoid, leukoplakia, ofl.

  • Munnvatnskirtilvandamál eins og lyfjatengdur munnþurrkur, Sjögren sjúkdómur, kirtilæxli, ofl.

  • Ýmis skyntaugavandamál eins og burning mouth syndrome og atypical facial pain.

  • Verkjavandamál eins og vöðvaverkir, liðverkir, taugaverkir, ofl.

  • Vandamál tengd krabbameinsmeðferðum eins og mucositis, hýsilhöfnunarsjúkdómur, beindrep í kjálkum, ofl.